Um Axelsbúð

Axelsbúð á Akranesi
Verslun og þjónusta við skagamenn frá 1942
Axelsbúð á Akranesi hefur verið rekin frá árinu 1942 og hefur verið mikilvægur hluti af sögu bæjarins frá stofnun hennar. Í dag er Axelsbúð rekin af Axel Gústafssyni sem er barnabarn Axels Sveinbjörnssonar sem stofnaði Veiðarfæraverslun Axels á sínum tíma. Axel hóf ungur störf hjá afa sínum og tók við rekstri Axelsbúðar fyrir aldamót og rekur verslunina enn í dag við heimili sitt að Merkigerði 2.

Hjá Axel í dag er rekin reiðhjólaverslun og reiðhjólaverkstæði en einnig má finna hjá Axel veiðivörur ásamt ýmsu öðru.

Sagan af Axelsbúð

Það var 18. desember 1942 sem Axel Sveinbjörnsson stofnaði verslun sína. Upphaflega hét hún Axel Sveinbjörnsson, Skipaverslun. Axel sá að það var skortur á vörum fyrir útgerðina og vildi hann því þjónusta bátunum og ýmsu sem því tilheyrði.


Þá þurfti að sækja um leyfi til að fá að versla með vörur. Axel og Lovísa Jónsdóttir kona hans unnu fyrst tvö í búðinni, en níu  mánuðum eftir að þau byrjuðu var ungur maður að nafni Guðjón ráðinn í vinnu. Guðjón Finnbogason var vinsæll afgreiðslumaður og vann í versluninni í 56 ár. Axel byrjaði að versla í litlu húsnæði, eins og bílskúr að stærð. 1950 kaupir Axel verslunarhúsnæði og gat þá aukið vöruúrvalið mikið.

Heimildarmynd um Axelsbúð
Vorið 2005 var Axelsbúð á Akranesi lokað eftir áratuga rekstur. Þórður Ólafsson tók hús á Axel Gústafssyni rétt fyrir lokun og fór yfir sögu verslunarinnar.
Share by: